Ný byrjun...

Sannarlega hefur viljinn verið fyrir hendi að drita hér inn einhverju misgáfulegu öðru hvoru en einhvern veginn verður aldrei af því. En nú reyni ég enn og aftur.

Dagurinn í dag skal vera fyrsti dagur í prógrammi þar sem æfingaáætlun verður fylgt dag frá degi án múðurs, auðvitað með eðlilegum tilfærslum vegna vinnu og þess háttar - en stefnan er að halda plani.

Komum annars heim í Hólm kl. þrjú í nótt eftir yndislega tæpa viku í Köben hjá Tinnu og strákunum. Ansi ljúft verð ég að segja. Fyrsta ferðalag okkar 4ra manna fjölskyldunnar í ansi mörg ár og gaman að heimsækja Tinnu öll saman, þ.a. Sunna í fyrsta skipti. Dagarnir ljúfir og góðir en einhvern veginn verður mér ekki tamara að kveðja með árunum, fór bara að skæla þegar við kvöddum og skæli bara inn í mér áfram þegar ég hugsa til þeirra, sakna þeirra sem sagt smá mikið.

Náðum að sofa aðeins frameftir en svo drifum við okkur út á hjólunum eftir mat, fórum með pakka á pósthús og kíktum svo á marz tútturnar og hrausta hafnarvörðinn og tókum stöðuna á þeim. Allir góðir þar og hlakka ég til að hitta hópinn á sundæfingu kl. sex í fyrramálið og svo takast á við vinnu og verkefni næstu daga sem eru næg m.v. fjölda ólesinna tölvupósta vegna vinnu og bæjarmála.

Skelltum okkur svo aðeins í laugina þar sem ég prufaði sund-bikiníið mitt, tók létta 500m með fit, blöndu af skriði, kick og pull og léttum teygjum og svo potti til að hita upp fyrir nuddtíma sem ég átti seinna í dag. Virkilega næs að láta strjúka úr sér arkið um Kaupmannahöfn síðustu daga og stífan háls eftir flugvéla- og bílasetu í gærkvöldi og nótt.

Tók svo hlaup dagsins skv. MA áætlun - 35mín tempó á bretti, samtals 6,2km og svo létt 500m niðurlabb. Svo er að sjá hvernig maður verður í sundinu í fyrramálið.

Sem sagt fínn dagur eftir gúrmei viku í dk með tilheyrandi smá sukki í mat og drykk. Sund, nudd og smá hlaup - góð byrjun! Kvöldnæringin var svo eggjahræra, tómatar, avocadó, kjúklingaskinka, jalapenos og kotasæla. Mun samt væntanlega þurfa "fyrirsvefninn" máltíð líka ef ég þekki mig rétt.

En allavega, stefni á að reyna að halda dampi hér eitthvað næstu vikurnar, sjáum hvað setur.

íhs


Það styttist...

Nánar tiltekið aðeins 47 dagar í keppni. Enda er mig farið að dreyma Barcelona, þó að ég hafi aldrei til borgarinnar komið:)

Síðasta vika var erfið. Vikan þar á undan var skrítin vegna ferðalags okkar hjóna á vinabæjarmót til Drammen, náðum sundæfingu þá vikuna á þriðjudegi áður en brunað var úr bænum, vorum svo á ferðalagi á miðvikudag - náðum að hlaupa örstutta 4,5km á fimmtudag og síðan ekki söguna meir fyrr en heim var komið, en við vorum ekki komin heim í Hólminn okkar fyrr en á mánudagskvöld. Það var ljúft. Alltaf svo gott að koma heim, þó að það sé gaman að ferðast og kynna sér nýja hluti, þá eru svona ferðir standandi dagskrá frá morgni til kvölds og lítill tími gefst til annars.

Ég var því orðin spennt að komast á sundæfingu á sl. þriðjudagsmorgun kl. 5.45 en að auki tókum við hraða-hlaupaæfingu (frá föstudegi) eftir vinnu þennan sama dag. Það tók á. Hjólaæfingu tók ég fyrir vinnu á miðvikudag, lyfti á miðvikudagskvöld eftir vinnu og fundarsetu, synti á fimmtudag í blautbúningnum mínum fyrst að æfingin sú var „bara" 2,5km. Það var skemmtilegt. Gallinn gefur gott flot og maður fær á tilfinninguna að maður fljúgi áfram. Kannski er maður samt bara að silast áfram á sömu hægu ferðinni og vanalega, hvað veit maður. En tilfinningin er góð. Við tókum svo saman hraða æfingu á vellinum eftir vinnu á föstudag, ég, Högni, Ása og Erla - það tók líka á en var skemmtilegt að gera saman. Svo lyftum við þar á eftir. Ekki leist nú öllum á það, þar sem fyrir lá langur múrsteinn á laugardag, nefnilega 3tíma hjól með 30mín hlaupi strax á eftir. Kellan ég var líka orðin hálf slöpp. Eldaði gourmet pasta með heimatilbúnu valhnetupestói, sem sló í gegn. Svo gekk frúin snemma til koju enda góður dagur framundan.

Laugardagur rann upp svo bjartur og fagur. VSV 1m/sek og blíðviðri, líklegast 8-10 gráðu hiti. Ég snýtti rösklega út grænum köllum, hóstaði og hrækti út skít, borðaði kjarngóðan ofurgraut í morgunverð og setti nóg af húsbréfi í vasana - svo var skundað í samhjól með 3SNÆ. Erla mætti með ný orkugel til prufu og voru allir búnir að gleypa eitt þegar við lögðum í hann, sjö saman, frá íþróttamiðstöð rúmlega níu. Við sem fórum lengst rúlluðum að áningunni handan Kolgrafafjarðar, þar sem var pissað, geli, vatni og orkustöngum bætt á tanka og svo var hjólað til baka. Við Högni tókum svo 5km hlaup á 29:15 eftir hestavegi upp að Snoppu og til baka og þarna var slappa konan með stíbblaða nefið alveg búin á því en kláraði samt með kalli, þó að púlsinn væri ekki innan æskilegra þjálfunarmarka. En það er önnur saga.

Sunnudagshlaupið tókum við hjón svo seinnipartinn í gær í rigningarsudda mót vestanátt. Ekki lét Frú Ugla sjá sig, en hún hefur fylgt okkur nokkra af undanförnum sunnudögum, sem er bara gaman. 10km lágu í valnum á 59:23 sem ég kalla gott m.v. ástandið á konunni, ennþá hálfslöpp en meira hvað líðanin var góð eftirá.

Vikan framundan er annars hefðbundin. 4km sund á morgun, hjólasprettir og lyftingar á miðvikudag, 3km hraða-sundæfing á fimmtudag, sprettir og lyftingar á föstudag, múrsteinn á laugardag og langt hlaup á sunnudag. Það tekur verulega á þessa dagana að vera að lyfta power æfingar skv. planinu, vera líka að taka þessar hraðaæfingar á hjóli og í hlaupum, þannig að maður er þreyttur í skrokknum og svo er ég alltaf svöng. Á tímabili um daginn var ég meira að segja orðin pirruð á því að vera alltaf að borða en vera samt alltaf svöng, fyrir utan það hvað það fer bara hellingsmikill tími í það að vera endalaust að útbúa sér eitthvað í gogginn. Margir karlmenn myndu væntanlega blikna við hliðina á mér þessa dagana...!

Sjö æfingavikur eftir, að þessari meðtalinni, þannig að það styttist og ekki laust við að um mann sé farinn að fara fiðringur.

Það styttist líka í sundæfingu morgundagsins og því kannski vissara að fara að fá sér kvöldsnarlið og koma sér svo í ró.

Með þríþrautarkveðju,

íhs


Fyrsta þríþrautin...

Nú er mál að standa sig! Ég ætlaði að nota þennan vettvang til að halda utan um maraþonundirbúninginn á síðasta ári en það fór nú eins og það fór. Væntanlega hafa æfingar gengið fyrir bloggskrifum en núna ætla ég að reyna að koma hvoru tveggja að í vikuplaninu og standa mig í því að koma einhverjum punktum varðandi þríþrautarbröltið okkar á blað allavega vikulega. Kannski fær eitthvað fleira að fljóta með svona eftir því hvernig liggur á mér hverju sinni. Sjáum hvað setur...

VIÐ erum sem sagt á leið í þríþraut. Þríþrautin sem við stefnum á er í Barcelona í Október nk. VIÐ erum stelpurnar hjá Marz Sjávarafurðum ehf., ásamt mökum (nema S. Elvari sem er í LEK þetta árið) en til viðbótar er Maggi Bærings hjá Agustson ehf. Ég segi stuttlega frá aðdragandanum að þessu ævintýri okkar í blaði vikunnar í Stykkishólmspóstinum og geta áhugasamir flett á bls. 6 á hlekknum hér fyrir neðan: 

http://issuu.com/stykkisholmsposturinn/docs/0616?mode=embed&layout=http%3A%2F%2Fskin.issuu.com%2Fv%2Flight%2Flayout.xml&showFlipBtn=true

Ákvörðunin var sem sagt formlega tekin í lok síðasta árs og bröltið í ræktinni varð markvissara í framhaldi af því. Við vorum svo þrjú úr hópnum sem skelltum okkur í Kópavogsþríþrautina 15. maí sl. og höfðum gagn og gaman af. Hér fyrir neðan má sjá okkur hjónin á skiptisvæðinu Cool fleiri myndir í albúmi hér til hliðar.

L1030059

Við Högni erum bæði komin með hjól, tókum ákvörðun um að kaupa Scott götuhjól í Markinu og fengum okkur sömu týpuna - mitt má sjá hér:

http://www.scott-sports.com/us_en/product/10254/55955/218005

Við héldum bæði að hjól væri bara hjól en það er sko misskilningur. Það er hryllilega gaman að hjóla á þessu og erum við farin að fara lengri túrana á laugardögum eftir þjóðveginum, allt í takt við æfingaáætlunina.

Það var tekin ákvörðun um að kaupa æfingaáætlun á netinu, af Mark Allen, og telur hún 20 vikur frá 31. maí sl. Við erum því komin á seinni hluta þriðju viku af tuttugu og þetta er bara gaman. Vikan samanstendur af sex æfingadögum; tveimur sundæfingum, tveimur hlaupaæfingum, tveimur hjólaæfingum og tveimur styrktaræfingum. Fyrstu tvær vikurnar voru svokallað aðlögunartímabil í styrktaræfingum þar sem einungis var fókusað á 1*12 og svo 1*15reps af tólf æfingum á hverri æfingu. Þessi síðasta vika og næstu vikur eru tekin tvö sett af þessum tólf æfingum og það þýðir bara það að núna er maður með harðsperrur. Það tekur smá tíma að venjast því að lyfta einn dag og fara svo á sundæfingu morguninn eftir, líkaminn aðlagast þessu vonandi fljótt og vel en allavega er maður fljótur að sofna á kvöldin þessa dagana.

Það er líka frábært að sjá hvað hópurinn hefur tekið miklum framförum í sundinu. Þegar við byrjuðum í febrúar þá voru held ég fæst okkar sem gátu synt samfellda 500m á skriði en í dag erum við að taka 2500-3000m á hverri æfingu og í raun ótrúlegt að hugsa til baka ekki svo margar vikur og rifja upp hvar við vorum stödd þá. Við tókum upp á vídeó í vor svona aðeins til að sjá okkur og gerðum það svo aftur núna í vikunni. Það er ansi fróðlegt að sjá sjálfan sig í samanburði við aðra og í samanburði við sundmyndböndin sem maður er að stúdera á youtube og alveg ljóst að þetta er eitthvað sem við þurfum að endurtaka með einhverju millibili.

Annars syntu Högni og Maggi alla 3000m æfinguna í morgun í blautbúningnum ( http://www.wiggle.co.uk/blueseventy-mens-axium-wetsuit/ ) og líkaði það vel. Um næstu helgi er svo sjósundmót SJÓR hér í Stykkishólmi og er stefnan tekin á að taka þátt í því upp að einhverju marki og prófa búningana almennilega. Spurning hvort maður nær að kaupa sér svona blautsokka í vikunni...

En stefnan er tekin á samhjól í fyrramálið kl. 11.00 og því spurning um að fara að koma sér í koju og ná sér í góða hvíld fyrir átökin, æfingin kveður á um 1:50mín á HR 122-142, vona að vindurinn hafi sig hægan svona rétt á meðan við klárum æfinguna. Hann má svo blása þegar maður verður kominn í skjól og sól í sundlauginni eftir æfingu.

Læt staðar numið að sinni og set stefnuna á að koma með reglulegt innleg hérna, þó ég lofi ekki langloku í hvert sinn!

íhs 


Lasarus hlauparus...

Þar kom að því... í fyrsta skipti í vetur læt ég einhverja leiðinda kvefpest slá mig niður og hef því ekki hreyft mig í dag né í gær, fyrir utan 9holurnar sem ég fór á Víkurvelli í gærmorgun í góðra manna hópi. Finnst ég svona hálfpartinn vera að svíkjast undan, með því að vera ekki að fara eftir áætluninni, en það er væntanlega lítil skynsemi í því að brölta í æfingahlaup með hor í nös og þungt fyrir brjósti.

Febrúarmánuður mjakast áfram og ég er alveg í gírnumWink Finnst það sem ég er að gera þessa dagana rosalega gaman og æfingarnar skemmtilegar og spennandi og ég er bara ekki frá því að ég sé farin að finna mun á sjálfri mér síðan ég byrjaði að æfa eftir þessari æfingaáætlun fyrir maraþonið.

Janúarmánuður gekk ágætlega. Ég fór þó rólega af stað því ég var svolítið tæp í vinstra hnénu og með einhverja slæmsku neðarlega vinstra megin í bakinu. Ég ákvað svo frá 1. janúar að skrá alla mína hreyfingu þetta árið og halda utan um alla kílómetra sem ég fer.

Árið hófst á útihlaupi á golfvellinum á Nýársdag og fyrstu daga ársins var ég á eigin vegum og hljóp bara eftir mínu plani, ef svo má segja og gekk bara vel. 12. janúar fékk ég svo þrjár sprautur í bakið og hvíldi því þann dag og næsta og fór svo af stað aftur á fimmtudegi og tók þá létt skokk fimmtudag til sunnudags, stigvaxandi í tímalengd, 20-30-40 og 50mínútur og byrjaði svo skv. nýrri áætlun mánudaginn 18. janúar og er því búin að æfa skv. henni í fjórar vikur.

Vikan líður þannig að á mánudögum tek ég brekkuspretti, þriðjudagar og fimmtudagar eru eins en þá tek ég 5km í upphitun og svo lyftingar og 10mín labb á bretti í lokin, miðvikudagar eru fartlek dagar, föstudagar frí, laugardagar interval dagar og á sunnudögum tek ég langa hlaupið, sem er nú ekkert svo langt ennþá en það kemur.

Janúar taldi samtals 175,2km og fór ég mest 47,5km í síðustu viku mánaðarins en þetta er það lengsta sem ég hef hlaupið á einum mánuði hingað til. Febrúar er kominn í 80km slétta og riðlast nú væntanlega planið eitthvað út af þessu kvef-hléi mínu núna en það verður vonandi tími til að bæta það upp síðar...

Annars var janúar svolítið erfiður upp á það að gera að það var svo mikið að gera í skemmtanalífinu og það tekur vissulega toll af manni. Ég tók tvo fertugsafmæli með trompi, eina stelpuferð til Reykjavíkur og svo byrjaði ég febrúar á því að klára kröftugt djamm á þorrablóti, en það sér hver heil vita maður að það gengur ekki til lengdar að vera úti á lífinu helgi eftir helgi, þegar maður er að þjálfa á markvissan hátt og ætlar sér að ná einhverjum árangri. 

Ég hef því tekið þá ákvörðun að ég er komin í hlé frá meiriháttar skemmtanahaldi fram yfir hlaup. Auðvitað á maður eftir að skella sér á ball og í einhverja gleði en það verður væntanlega eitthvað annað í glasinu mínu þá en g&t ef þið skiljið hvað ég meina! Enda er vatnið hér í Hólminum eitt það besta sem þú færð á landinu og þó víðar væri leitað!

En nú ætla ég að fara og snýta mér og taka nap á þetta, hafa það huggó í kvöld og brölta svo vonandi spræk í vinnuna í fyrramáliðSmile

Heilsa í bili,

Íris


Ágætis start...

Þar kom að því! Er búin að velta fyrir mér í dálítinn tíma að stofna nýtt blogg, aðallega til að halda utan um þetta hlaupavesen mitt eftir nýjasta markmiðið sem búið er að setja.

Þetta byrjaði allt á sjávarútvegssýningunni í Brussel í apríl 2009. Við stelpurnar vorum á leið niður í sýningarhöll einhvern morguninn þegar ein úr vinnuhópnum kastaði því fram að það gæti orðið gaman að hlaupa maraþon fyrir næsta stórafmæli.

það var eins og við manninn mælt... við hinar gripum þetta á lofti! Nema hvað Cool ?!?

Við erum sem sagt sex konur sem vinnum hjá Marz Sjávarafurðum ehf., en fimm okkar hafa ákveðið að slá til með þessa áskorun. Þrjár ætla að fara heilt maraþon og tvær ætla að fara hálft maraþon. Allar erum við á mismunandi stöðum í lífinu, á mismunandi aldri og með misjafnan bakgrunn í þjálfun. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við ákváðum að láta vaða eftir að hafa velt þessu fyrir okkur síðustu mánuði.

Því var það um áramótin um leið og skráning hófst að ég sat inni við borðstofuborðið með fartölvuna í fullu blasti og skráði og skráði hersinguna í 35. Amsterdam maraþonið sem fer fram þann 17. október 2010, á meðan fjölskyldan mín var úti að skjóta upp rakettum. Mér finnst hvort sem er ekki gaman að flugeldum...

Fyrsta skrefið var því tekið, formlegri skráningu lokið og nú skyldi byrja að telja niður.

Í rauninni var fyrsta skrefið samt stigið í haust þegar við ákváðum þetta formlega, fundum hlaup sem hentar hópnum og veltum fyrir okkur að leita ráða hjá okkur fróðara fólki. Við á skrifstofunni hér heima fáum handleiðslu, því hún Fríða Rún Þórðardóttir sér um þjálfunaráætlanir fyrir okkur, ráðleggur okkur með mataræði og heldur utan um okkur á þessari vegferð.

Þetta blogg hugsa ég sem nokkurs konar dagbók fyrir sálfa mig því ef ég klára þetta, þá lít ég á það sem eitt af því stærra sem ég hef gert í lífinu fram til þessa og mig langar að eiga það á "fæl" einhversstaðar.

Læt þetta nægja sem fyrstu færslu. Mun væntanlega fylgja henni eftir í vikunni með smá samantekt um janúarmánuð en þá hófust formlegar æfingar.

Sæl að sinniWink

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband