Ágætis start...
2.2.2010 | 20:46
Þar kom að því! Er búin að velta fyrir mér í dálítinn tíma að stofna nýtt blogg, aðallega til að halda utan um þetta hlaupavesen mitt eftir nýjasta markmiðið sem búið er að setja.
Þetta byrjaði allt á sjávarútvegssýningunni í Brussel í apríl 2009. Við stelpurnar vorum á leið niður í sýningarhöll einhvern morguninn þegar ein úr vinnuhópnum kastaði því fram að það gæti orðið gaman að hlaupa maraþon fyrir næsta stórafmæli.
það var eins og við manninn mælt... við hinar gripum þetta á lofti! Nema hvað ?!?
Við erum sem sagt sex konur sem vinnum hjá Marz Sjávarafurðum ehf., en fimm okkar hafa ákveðið að slá til með þessa áskorun. Þrjár ætla að fara heilt maraþon og tvær ætla að fara hálft maraþon. Allar erum við á mismunandi stöðum í lífinu, á mismunandi aldri og með misjafnan bakgrunn í þjálfun. Það kemur þó ekki í veg fyrir að við ákváðum að láta vaða eftir að hafa velt þessu fyrir okkur síðustu mánuði.
Því var það um áramótin um leið og skráning hófst að ég sat inni við borðstofuborðið með fartölvuna í fullu blasti og skráði og skráði hersinguna í 35. Amsterdam maraþonið sem fer fram þann 17. október 2010, á meðan fjölskyldan mín var úti að skjóta upp rakettum. Mér finnst hvort sem er ekki gaman að flugeldum...
Fyrsta skrefið var því tekið, formlegri skráningu lokið og nú skyldi byrja að telja niður.
Í rauninni var fyrsta skrefið samt stigið í haust þegar við ákváðum þetta formlega, fundum hlaup sem hentar hópnum og veltum fyrir okkur að leita ráða hjá okkur fróðara fólki. Við á skrifstofunni hér heima fáum handleiðslu, því hún Fríða Rún Þórðardóttir sér um þjálfunaráætlanir fyrir okkur, ráðleggur okkur með mataræði og heldur utan um okkur á þessari vegferð.
Þetta blogg hugsa ég sem nokkurs konar dagbók fyrir sálfa mig því ef ég klára þetta, þá lít ég á það sem eitt af því stærra sem ég hef gert í lífinu fram til þessa og mig langar að eiga það á "fæl" einhversstaðar.
Læt þetta nægja sem fyrstu færslu. Mun væntanlega fylgja henni eftir í vikunni með smá samantekt um janúarmánuð en þá hófust formlegar æfingar.
Sæl að sinni
Athugasemdir
Hæ sæta systa,
Mátt alveg blogga eins og vindurinn fyrir mér.....
jú gó görl:)
knús og koss
Tinna (IP-tala skráð) 9.2.2010 kl. 07:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.