Það styttist...

Nánar tiltekið aðeins 47 dagar í keppni. Enda er mig farið að dreyma Barcelona, þó að ég hafi aldrei til borgarinnar komið:)

Síðasta vika var erfið. Vikan þar á undan var skrítin vegna ferðalags okkar hjóna á vinabæjarmót til Drammen, náðum sundæfingu þá vikuna á þriðjudegi áður en brunað var úr bænum, vorum svo á ferðalagi á miðvikudag - náðum að hlaupa örstutta 4,5km á fimmtudag og síðan ekki söguna meir fyrr en heim var komið, en við vorum ekki komin heim í Hólminn okkar fyrr en á mánudagskvöld. Það var ljúft. Alltaf svo gott að koma heim, þó að það sé gaman að ferðast og kynna sér nýja hluti, þá eru svona ferðir standandi dagskrá frá morgni til kvölds og lítill tími gefst til annars.

Ég var því orðin spennt að komast á sundæfingu á sl. þriðjudagsmorgun kl. 5.45 en að auki tókum við hraða-hlaupaæfingu (frá föstudegi) eftir vinnu þennan sama dag. Það tók á. Hjólaæfingu tók ég fyrir vinnu á miðvikudag, lyfti á miðvikudagskvöld eftir vinnu og fundarsetu, synti á fimmtudag í blautbúningnum mínum fyrst að æfingin sú var „bara" 2,5km. Það var skemmtilegt. Gallinn gefur gott flot og maður fær á tilfinninguna að maður fljúgi áfram. Kannski er maður samt bara að silast áfram á sömu hægu ferðinni og vanalega, hvað veit maður. En tilfinningin er góð. Við tókum svo saman hraða æfingu á vellinum eftir vinnu á föstudag, ég, Högni, Ása og Erla - það tók líka á en var skemmtilegt að gera saman. Svo lyftum við þar á eftir. Ekki leist nú öllum á það, þar sem fyrir lá langur múrsteinn á laugardag, nefnilega 3tíma hjól með 30mín hlaupi strax á eftir. Kellan ég var líka orðin hálf slöpp. Eldaði gourmet pasta með heimatilbúnu valhnetupestói, sem sló í gegn. Svo gekk frúin snemma til koju enda góður dagur framundan.

Laugardagur rann upp svo bjartur og fagur. VSV 1m/sek og blíðviðri, líklegast 8-10 gráðu hiti. Ég snýtti rösklega út grænum köllum, hóstaði og hrækti út skít, borðaði kjarngóðan ofurgraut í morgunverð og setti nóg af húsbréfi í vasana - svo var skundað í samhjól með 3SNÆ. Erla mætti með ný orkugel til prufu og voru allir búnir að gleypa eitt þegar við lögðum í hann, sjö saman, frá íþróttamiðstöð rúmlega níu. Við sem fórum lengst rúlluðum að áningunni handan Kolgrafafjarðar, þar sem var pissað, geli, vatni og orkustöngum bætt á tanka og svo var hjólað til baka. Við Högni tókum svo 5km hlaup á 29:15 eftir hestavegi upp að Snoppu og til baka og þarna var slappa konan með stíbblaða nefið alveg búin á því en kláraði samt með kalli, þó að púlsinn væri ekki innan æskilegra þjálfunarmarka. En það er önnur saga.

Sunnudagshlaupið tókum við hjón svo seinnipartinn í gær í rigningarsudda mót vestanátt. Ekki lét Frú Ugla sjá sig, en hún hefur fylgt okkur nokkra af undanförnum sunnudögum, sem er bara gaman. 10km lágu í valnum á 59:23 sem ég kalla gott m.v. ástandið á konunni, ennþá hálfslöpp en meira hvað líðanin var góð eftirá.

Vikan framundan er annars hefðbundin. 4km sund á morgun, hjólasprettir og lyftingar á miðvikudag, 3km hraða-sundæfing á fimmtudag, sprettir og lyftingar á föstudag, múrsteinn á laugardag og langt hlaup á sunnudag. Það tekur verulega á þessa dagana að vera að lyfta power æfingar skv. planinu, vera líka að taka þessar hraðaæfingar á hjóli og í hlaupum, þannig að maður er þreyttur í skrokknum og svo er ég alltaf svöng. Á tímabili um daginn var ég meira að segja orðin pirruð á því að vera alltaf að borða en vera samt alltaf svöng, fyrir utan það hvað það fer bara hellingsmikill tími í það að vera endalaust að útbúa sér eitthvað í gogginn. Margir karlmenn myndu væntanlega blikna við hliðina á mér þessa dagana...!

Sjö æfingavikur eftir, að þessari meðtalinni, þannig að það styttist og ekki laust við að um mann sé farinn að fara fiðringur.

Það styttist líka í sundæfingu morgundagsins og því kannski vissara að fara að fá sér kvöldsnarlið og koma sér svo í ró.

Með þríþrautarkveðju,

íhs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband