Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Fyrsta þríþrautin...

Nú er mál að standa sig! Ég ætlaði að nota þennan vettvang til að halda utan um maraþonundirbúninginn á síðasta ári en það fór nú eins og það fór. Væntanlega hafa æfingar gengið fyrir bloggskrifum en núna ætla ég að reyna að koma hvoru tveggja að í vikuplaninu og standa mig í því að koma einhverjum punktum varðandi þríþrautarbröltið okkar á blað allavega vikulega. Kannski fær eitthvað fleira að fljóta með svona eftir því hvernig liggur á mér hverju sinni. Sjáum hvað setur...

VIÐ erum sem sagt á leið í þríþraut. Þríþrautin sem við stefnum á er í Barcelona í Október nk. VIÐ erum stelpurnar hjá Marz Sjávarafurðum ehf., ásamt mökum (nema S. Elvari sem er í LEK þetta árið) en til viðbótar er Maggi Bærings hjá Agustson ehf. Ég segi stuttlega frá aðdragandanum að þessu ævintýri okkar í blaði vikunnar í Stykkishólmspóstinum og geta áhugasamir flett á bls. 6 á hlekknum hér fyrir neðan: 

http://issuu.com/stykkisholmsposturinn/docs/0616?mode=embed&layout=http%3A%2F%2Fskin.issuu.com%2Fv%2Flight%2Flayout.xml&showFlipBtn=true

Ákvörðunin var sem sagt formlega tekin í lok síðasta árs og bröltið í ræktinni varð markvissara í framhaldi af því. Við vorum svo þrjú úr hópnum sem skelltum okkur í Kópavogsþríþrautina 15. maí sl. og höfðum gagn og gaman af. Hér fyrir neðan má sjá okkur hjónin á skiptisvæðinu Cool fleiri myndir í albúmi hér til hliðar.

L1030059

Við Högni erum bæði komin með hjól, tókum ákvörðun um að kaupa Scott götuhjól í Markinu og fengum okkur sömu týpuna - mitt má sjá hér:

http://www.scott-sports.com/us_en/product/10254/55955/218005

Við héldum bæði að hjól væri bara hjól en það er sko misskilningur. Það er hryllilega gaman að hjóla á þessu og erum við farin að fara lengri túrana á laugardögum eftir þjóðveginum, allt í takt við æfingaáætlunina.

Það var tekin ákvörðun um að kaupa æfingaáætlun á netinu, af Mark Allen, og telur hún 20 vikur frá 31. maí sl. Við erum því komin á seinni hluta þriðju viku af tuttugu og þetta er bara gaman. Vikan samanstendur af sex æfingadögum; tveimur sundæfingum, tveimur hlaupaæfingum, tveimur hjólaæfingum og tveimur styrktaræfingum. Fyrstu tvær vikurnar voru svokallað aðlögunartímabil í styrktaræfingum þar sem einungis var fókusað á 1*12 og svo 1*15reps af tólf æfingum á hverri æfingu. Þessi síðasta vika og næstu vikur eru tekin tvö sett af þessum tólf æfingum og það þýðir bara það að núna er maður með harðsperrur. Það tekur smá tíma að venjast því að lyfta einn dag og fara svo á sundæfingu morguninn eftir, líkaminn aðlagast þessu vonandi fljótt og vel en allavega er maður fljótur að sofna á kvöldin þessa dagana.

Það er líka frábært að sjá hvað hópurinn hefur tekið miklum framförum í sundinu. Þegar við byrjuðum í febrúar þá voru held ég fæst okkar sem gátu synt samfellda 500m á skriði en í dag erum við að taka 2500-3000m á hverri æfingu og í raun ótrúlegt að hugsa til baka ekki svo margar vikur og rifja upp hvar við vorum stödd þá. Við tókum upp á vídeó í vor svona aðeins til að sjá okkur og gerðum það svo aftur núna í vikunni. Það er ansi fróðlegt að sjá sjálfan sig í samanburði við aðra og í samanburði við sundmyndböndin sem maður er að stúdera á youtube og alveg ljóst að þetta er eitthvað sem við þurfum að endurtaka með einhverju millibili.

Annars syntu Högni og Maggi alla 3000m æfinguna í morgun í blautbúningnum ( http://www.wiggle.co.uk/blueseventy-mens-axium-wetsuit/ ) og líkaði það vel. Um næstu helgi er svo sjósundmót SJÓR hér í Stykkishólmi og er stefnan tekin á að taka þátt í því upp að einhverju marki og prófa búningana almennilega. Spurning hvort maður nær að kaupa sér svona blautsokka í vikunni...

En stefnan er tekin á samhjól í fyrramálið kl. 11.00 og því spurning um að fara að koma sér í koju og ná sér í góða hvíld fyrir átökin, æfingin kveður á um 1:50mín á HR 122-142, vona að vindurinn hafi sig hægan svona rétt á meðan við klárum æfinguna. Hann má svo blása þegar maður verður kominn í skjól og sól í sundlauginni eftir æfingu.

Læt staðar numið að sinni og set stefnuna á að koma með reglulegt innleg hérna, þó ég lofi ekki langloku í hvert sinn!

íhs 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband